Innlent

Veðrið mun skána áður en það versnar aftur í kvöld

Birgir Olgeirsson skrifar
Það hefur verið fremur slæmt veður á höfuðborgarsvæðinu í dag, líkt og víða annarsstaðar á landinu.
Það hefur verið fremur slæmt veður á höfuðborgarsvæðinu í dag, líkt og víða annarsstaðar á landinu. Vísir/GVA
Samkvæmt veðurspám mun veðrið skána á höfuðborgarsvæðinu og vestanverðu landinu á milli klukkan 16 og 19 í dag. Það er þó um skammgóðan vermi að ræða, ef svo má að orði komast, því veðrið mun versna á ný upp úr klukkan 22 og inn í nóttina.

Almannavarnadeild ríkislögreglustjóra hvetur því fólk og fyrirtæki að huga að lausamunum og tryggja byggingasvæði og báta.

Samkvæmt veðurfræðingi á Veðurstofu Íslands er búist við suðaustan stormi eða roki á sunnan- og vestanverðu landinu og Miðhálendinu í dag, víða snarpar vindhviður, jafnvel yfir fjörutíu metrar á sekúndu við fjöll.

Búast má við suðlægari átt í kvöld og hvessir á Norðurlandi. Búist er við talsverðri rigningu sunnan- suðaustanlands síðdegis.

Horfur næsta sólarhringinn

Suðaustan 15-25 m/s á sunnan- og vestanverðu landinu og víða snarpar vindhviður við fjöll en 20-28 m/s á Snæfellsnesi. Víða rigning, talsverð suðaustantil, en mun hægari vindur og þurrt norðan- og austanlands. Hvessir norðan- og norðaustantil í kvöld, sunnan 20-28 þar í nótt en sunnan 15-20 á Austurlandi. Dregur úr vindi vestantil í nótt en austantil í fyrramálið. Áfram rigning með köflum eða skúrir á morgun en skýjað með köflum norðaustan- og austanlands. Hiti 6 til 13 stig, hlýjast á Norðurlandi.

Efra kortið sýnir bæði rigningu og vind en neðra kortið sýnir einungis vind.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×