Fótbolti

Jón Daði: Við erum aldrei saddir

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Það er nokkur óvissa um hvort Jón Daði Böðvarsson geti spilað með íslenska landsliðinu gegn Finnum í undankeppni HM á morgun.

„Standið á mér gæti verið betra. Ég er tæpur í náranum og það er eitthvað sem ég er að vinna í með sjúkraþjálfara núna. Þetta er ekki alvarlegt. Ég fór í myndatöku og það er engin tognun eða neitt slíkt,“ segir Jón Daði.

„Ég er bjartsýnn á að geta spilað en maður veit aldrei. Það verður að koma í ljós. Þetta gerðist fyrir um tveim vikum á æfingu daginn fyrir leik. Nárinn er lúmskur og það tekur tíma fyrir hann að jafna sig.“

Þó svo það séu eintóm leiðindi að glíma við nárameiðsli þá er Jón Daði kátur að koma heim og hitta strákana.

„Það er ógeðslega gaman. Ekkert skemmtilegra en það. Það er mjög gaman að koma heim og ég næ kannski að skjótast aðeins á Selfoss,“ segir Jón Daði.

Framherjinn gerir sér grein fyrir því að það sé pressa á liðinu fyrir leikinn gegn Finnum á morgun.

„Maður finnur að það eru meiri væntingar en við bjuggumst alveg við því. Við tökum því eins og menn. Við viljum líka komast enn lengra sjálfir. Við erum aldrei saddir og það eru allir saman í þessu. Við setjum líka pressu á okkur sjálfa,“ segir Selfyssingurinn en hann veit ekki mikið um finnska liðið.

„Í hreinskilni veit ég ekki mikið en við munum fara vel yfir þá á fundum. Við vitum að þeir vilja halda bolta og eru agaðir og skipulagðir í varnarleiknum sínum.“

Sjá má viðtalið við Jón Daða í heild sinni hér að ofan.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×