Erlent

Gríðarleg eyðilegging á Haítí

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Alls hafa 877 fundist látnir á Haítí og óttast er að sú tala muni hækka á næstu dögum.
Alls hafa 877 fundist látnir á Haítí og óttast er að sú tala muni hækka á næstu dögum. vísir/epa
Gríðarleg eyðilegging blasir við á Haítí eftir að fellibylurinn Matthew gekk þar yfir á þriðjudag þar sem heilu þorpin hafa nær jafnast við jörðu. Tæplega níu hundruð manns hafa fundist látnir og óttast er að sú tala muni fara hækkandi.

Fellibylurinn er sá öflugasti sem gengið hefur yfir Haítí í áratug og bíður björgunarfólki erfitt verkefni. Hann er nú við suðausturströnd Bandaríkjanna við Suður-Karólínu, Georgíu og Norður-Karólínu, en fellibylurinn hefur orðið minnst fjórum að bana í Bandaríkjunum.

Styrkur hans hefur minnkað nokkuð frá því sem mest var í vikunni og er nú metinn sem annars stigs fellibylur. Eyðileggingin er töluverð og tæplega milljón heimili án rafmagns.

Enn óttast íbúar flóð vegna rigninga og hárrar sjávarstöðu og sagði ríkisstjóri Flórída í gærkvöld að eftirköst fellibylsins verði langvarandi. Meðalvindhraði mælist nú um og yfir 45 metrar á sekúndu og spá veðurfræðingar því að á næstu tveimur til þremur dögum minnki styrkur Matthíasar það mikið að hann færist úr flokki fellibylja í hitabeltisstorm.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×