Fótbolti

Hannes Þór: Ekki algengt að muna ekki eftir færi

Smári Jökull Jónsson skrifar
Hannes Þór Halldórsson átti fremur náðugan dag í markinu í leiknum gegn Tyrkjum.
Hannes Þór Halldórsson átti fremur náðugan dag í markinu í leiknum gegn Tyrkjum. vísir/anton
Hannes Þór Halldórsson átti fremur náðugan dag í íslenska markinu gegn Tyrkjum í kvöld. Hann þurfti aldrei að taka á honum stóra sínum og viðurkenndi sjálfur eftir leik að hann hefði átt von á betri frammistöðu Tyrklands.

„Svona ef maður horfir til baka þá létu þeir ekki mikið reyna á mig aftast og allt liðið varðist frábærlega. Varnarlínan og leikmennirnir þar fyrir framan hleyptu þeim ekki í eitt einasta færi og það er ekki algengt í fótboltaleikjum að maður muni ekki eftir neinum færum,“ sagði Hannes Þór þegar Vísir ræddi við hann eftir leik.

„Við vorum góðir í dag, áttum hættuleg færi og skorðum tvö mörk auk þess að halda þeim alveg frá markinu okkar. Við nýttum okkur aðstæður, rok og rigningu og við vissum að þeir yrðu pirraðir ef hlutirnir myndu ekki falla með þeim."

"Við gerðum þetta erfitt fyrir þá og náðum að sigla leiknum í okkar farveg,“ bætti Hannes við.

Frammistaða Íslands var nánast gallalaus frá upphafi til enda og Hannes tók undir það að þetta væri ein besta frammistaða landsliðsins síðustu misseri.

„Fyrri hálfleikurinn var mjög góður og þetta er eflaust með betri hálfleikjum sem við höfum spilað. Það var gaman að koma inn eftir meiðslin og ég hlakkaði til að spila fyrir framan fullan Laugardalsvöll. Sem betur fer reyndi ekki mikið á mig en ég var tilbúinn ef þess hefði þurft,“ sagði Hannes Þór að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×