Fótbolti

Eyjólfur: Þeir vilja slagsmál en við ætlum að halda okkur við fótboltann

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Íslenska U21 árs landsliðið í fótbolta mætir Norður-Írlandi í kvöld í Belfast í mikilvægum leik í undankeppni EM 2017 en leikurinn hefst klukkan 18.00 að íslenskum tíma.

Ísland er í öðru sæti síns riðils með tólf stig, tveimur stigum minna en Frakkland en strákarnir okkar eiga leik til góða á Frakkana sem þeir einmitt mæta á þriðjudaginn.

Sjá einnig:Oliver í Belfast: Þetta var slys og gerist ekki aftur

Norður-Írland er neðst í riðlinum með eitt stig en það stig sótti liðið til Íslands í leik þar sem íslenska liðið fór illa að ráði sínu í Árbænum.

„Æfingar eru búnar að ganga vel og undirbúningur í fínasta lagi. Við erum bara spenntir að fara í þennan mikilvæga leik þar sem við ætlum okkur sigur,“ segir Eyjólfur Sverrisson, þjálfari liðsins, í viðtali við heimasíðu KSÍ en við hverju býst hann í Belfast?

„Mikilli baráttu. Þeir hleypa leiknum mikið upp í baráttu og slagsmál. Við ætlum að reyna að halda okkur við fótboltann og vera fljótir að færa boltann á milli vallarhelminga þannig við náum að brjóta þá á bak aftur.“

Þrátt fyrir að mæta neðsta liðinu vill Eyjólfur ekkert vanmat. Hann vill aftur á móti sigur og að strákarnir geri betur fyrir framan markið en þeir gerðu þegar liðin mættust á Íslandi.

„Þeir eru með fínt lið og stóðu sig vel á Íslandi í erfiðum aðstæðum. Það var rok og rigning og var baráttuleikur. Við fengum færi til að klára leikinn en náðum ekki að nýta þau færi. Þá verða leikirnir erfiðir en við verðum að vera klárir að nýta færin núna,“ segir Eyjólfur.

„Ég reikna með að þetta verði virkilega erfiður leikur og það verði erfitt að brjóta þá á bak aftur en við ætlum okkur sigur,“ segir Eyjólfur Sverrisson.

Allt viðtalið má sjá í spilaranum hér að ofan.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×