Íslenski boltinn

Helena tekur við ÍA

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Á myndinni eru Sævar Freyr Þráinsson, varaformaður KFÍA, Helena Ólafsdóttir, Magnús Guðmundsson, formaður KFÍA. Fyrir aftan standa núverandi þjálfarar Steindóra Steinsdóttir og Kristinn Guðbrandsson.
Á myndinni eru Sævar Freyr Þráinsson, varaformaður KFÍA, Helena Ólafsdóttir, Magnús Guðmundsson, formaður KFÍA. Fyrir aftan standa núverandi þjálfarar Steindóra Steinsdóttir og Kristinn Guðbrandsson. mynd/ía
Helena Ólafsdóttir hefur verið ráðin þjálfari meistaraflokks kvenna fyrir næsta tímabil hjá Knattspyrnufélagi ÍA. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá félaginu.

Helena tekur við liðinu af hjónunum Kristni Guðbrandssyni og Steindóru Steinsdóttur sem munu stýra ÍA út tímabilið í Pepsi-deild kvenna. Kristinn og Steindóra verða áfram í baklandi meistaraflokks kvenna auk þess að sinna fleiri verkefnum hjá félaginu.

Helena er einn reyndasti þjálfari landsins. Hún starfaði síðast sem þjálfari hjá FK Fortuna í Álasund í Noregi. Þar áður þjálfaði hún meistaraflokk hjá FH, Selfoss, KR og Val. Helena þjálfaði einnig A-landslið kvenna á árunum 2003-04.

Helena var einnig sigursæll leikmaður á sínum tíma og varð margfaldur Íslandsmeistari með KR á árunum 1993-99. Hún lék einnig með ÍA og varð m.a. bikarmeistari með liðinu árið 1992. Helena lék 8 A-landsleiki fyrir Ísland.

Í sumar hefur Helena stýrt umfjöllun Stöðvar 2 Sports um Pepsi-deild kvenna.

Einnig hefur verið gengið frá ráðningu aðstoðarþjálfara liðsins en Aníta Lísa Svansdóttir mun aðstoða Helenu við þjálfun liðsins.

ÍA er í tíunda og neðsta sæti Pepsi-deildar kvenna með átta stig, tveimur stigum frá öruggu sæti, þegar fjórum umferðum er ólokið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×