Erlent

Undirbjuggu árás í París á vegum ISIS

Samúel Karl Ólason skrifar
Auk kvennanna var einn karlmaður handtekinn í aðgerðum lögreglu í Frakklandi í gær.
Auk kvennanna var einn karlmaður handtekinn í aðgerðum lögreglu í Frakklandi í gær. Vísir/AFP
Yfirvöld í Frakklandi segjast hafa komið í veg fyrir hryðjuverkaárás Íslamska ríkisins í París. Þrjár konur sem voru handteknar í Frakklandi í gær höfðu lýst sig hliðhollar hryðjuverkasamtökunum. Þær voru handteknar eftir að gashylki og eldsneyti fannst í bíl í París.

Við handtökuna í gær stakk ein kvennanna lögregluþjón með hnífi en hún var síðan skotin af öðrum lögregluþjóni. Konurnar eru 19, 23 og 39 ára gamlar. Auk þeirra var einn karlmaður handtekinn í gær.

Francois Molins, saksóknari í París, segir að þær hafi tekið við skipunum frá Sýrlandi. Hann segir þetta til marks um það að samtökin hafi nú snúið sér að því að fá konur til að ganga til liðs við sig og gera árásir í Evrópu.

Francois Hollande, forseti Frakklands, segir að þrátt fyrir að þær hafi verið handteknar séu aðrir sem gangi lausir. Hann segir Frakka þurfa að vera tilbúna til bregðast við öllum mögulegum árásum.

Samkvæmt AFP fréttaveitunni var yngsta konan kærasta Larossi Abballa, sem myrti franskt lögreglupar á heimili þeirra nærri París í júní.

Eftir að hafa myrt manninn, sem var lögreglumaður, og konu hans, sem starfaði hjá lögregluembættinu, tók hann þriggja ára gamalt barn þeirra í gíslingu en lögreglan náði að bjarga barninu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×