Erlent

Minnst 1.900 drepnir í átaki gegn fíkniefnum

Samúel Karl Ólason skrifar
Ronald dela Rosa, yfirmaður lögreglunnar í Filippseyjum.
Ronald dela Rosa, yfirmaður lögreglunnar í Filippseyjum. Vísir/EPA
1.916 manns hafa látið lífið eftir upphaf „átaks“ Rodrigo Duterte, nýskipaðs forseta Filippseyja, gegn fíkniefnum. Yfirmaður lögreglunnar segir að 756 hafi verið drepnir af lögreglu og að hin morðin séu til rannsóknar. Það samsvarar því að um 36 hafi verið drepnir á hverjum degi frá því Duterte sór embættiseið fyrir sjö vikum.

Ronald dela Rosa, yfirmaður lögreglunnar, sagði þingnefnd að það væri engin sérstök stefna að drepa fíkniefnanotendur og sölumenn. Duterte hefur hins vegar hvatt þegna sína til þess að drepa sölumenn sem streitast á móti við handtöku. Vopnuð gengi borgara hafa drepið fjölmarga sem taldir eru neyta fíkniefna eða selja þau.

Duterte, sem hefur fengið viðurnefnið „Refsarinn“ (e. Punisher), hefur varað þingmenn gegn því að þvælast fyrir átaki sínu. Hann hefur sagt að þeir gætu látið lífið ef þeir hægðu á viðleitni hans til að bæta Filippseyjar.

Sjá einnig: Lögreglan hefur drepið hundruð í Filippseyjum

Dela Rosa tók þó fram að um 40 morð komi fíkniefnum ekki við. Heldur tengist þau ránum og illdeilum. Þá eru um 300 lögregluþjónar grunaðir um aðild að fíkniefnasölu.

Reuters bendir á að uppi séu vangaveltur um að spilltir lögregluþjónar hafi drepið fjölmarga fíkniefnasala til að forðast að upp komist um spillingu þeirra.

Dela Rosa sagði að nærri því 700 þúsund neytendur og sölumenn hefðu gefið sig fram við lögreglu. Þau eru látin skrifa undir samning um að hætta athæfi sínu og fylgjast yfirvöld reglulega með því að þau fari eftir samningnum.

Sameinuðu þjóðirnar hafa, auk mannréttindasamtaka, lýst yfir áhyggjum á ástandinu í Filippseyjum og nú hafa Bandaríkin einnig gert það.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×