Íslenski boltinn

Best í fyrri umferðinni: Deildin er jafnari en oft áður

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Stjörnukonan Harpa Þorsteinsdóttir var valin besti leikmaður umferða 1-9 í Pepsi-deild kvenna en greint frá þessu í höfuðstöðvum Ölgerðarinnar í hádeginu.



Harpa hefur farið á kostum með Stjörnunni í sumar og skorað 13 mörk í fyrstu níu leikjum tímabilsins.

Stjörnunni hefur líka gengið ljómandi vel en liðið situr á toppi Pepsi-deildarinnar með 22 stig, einu stigi á undan Íslandsmeisturum Breiðabliks.

„Við erum gríðarlega sáttar eftir fyrri umferðina,“ sagði Harpa í samtali við Kjartan Atla Kjartansson í hádeginu.

Stjarnan, Breiðablik og Valur eru í þremur efstu sætum deildarinnar en Harpa segir að fleiri lið geti gert sig gildandi í toppbaráttunni.

„Fleiri lið geta blandað sér í þessa baráttu. Þetta er miklu jafnari deild en oft áður. Liðin eru sum hver að styrkjast með hverjum leiknum,“ sagði Harpa og nefnir t.d. lið eins og Þór/KA og ÍBV sem hafa náð góðum úrslitum að undanförnu.

Stjarnan er sem áður sagði á toppi Pepsi-deildarinnar og búin að ná í 22 stig af 27 mögulegum. En hver er galdurinn á bak við þennan góða árangur?

„Við erum með kjarna sem er búinn að spila lengi saman og reynslumikla leikmenn sem vita hvað til þarf til að vera á toppnum. Svo erum við með jafnan hóp og góða leikmenn fyrir utan byrjunarliðið,“ sagði Harpa.

Viðtalið í heild sinni má sjá hér að ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×