Innlent

Veðurspáin fyrir verslunarmannahelgi hefur skánað umtalsvert

Birgir Olgeirsson skrifar
Spákort Veðurstofu Íslands fyrir laugardag.
Spákort Veðurstofu Íslands fyrir laugardag. Vísir/vedur.is
Veðurspáin fyrir verslunarmannahelgina hefur skánað umtalsvert frá því á föstudag. Elín Björk Jónasdóttir, veðurfræðingur hjá Veðurstofu Íslands, segir ákveðna spá vera í kerfinu fyrir verslunarmannahelgina sem virðist vera búin að ná læstri stöðu. Því er ekki von á miklum breytingum á veðri, sé tekið mið af spánni, en vissulega þurfi að fylgjast vel með þegar nær dregur. 

„Það er búist við úrkomu á föstudagskvöldinu á norðausturhorninu og norðan til eins og er. Það er frekar rakt yfir landinu og það heldur áfram. Helst á laugardag sem það er aðeins skárra, svo er aftur útlit fyrir súld á sunnudag,“ segir Elín.

Töluverður munur er á spánum er varða norður- og suðurhelminga landsins. Á laugardag verður til að mynda varla ský á lofti í Reykjavík, Árnesi og Vestmannaeyjum og léttskýjað á suðausturhorni landsins. Á meðan verður alskýjað á norðurhluta landsins og hitatölur lægri.

Elín segir þetta eðlilegt í norðan átt sem verður ríkjandi út vikuna, en þá er þungbúið of oft úrkomusamt Norðanlands, en bjart og þurrt syðra. Í sunnanátt er Suðurland áveðurs og þar þá oft rigning, veður þungbúið og að sumarlagi svalt. Norðurlandi er þá hlémegin í sunnanáttinni og þá þurrt þar og hlýtt veður.

„Júní var rosagóður fyrir norðan og þá var rigning sunnanlands. Nú er nákvæmlega andstæðan.“

Veðurhorfur á landinu næstu daga:

Á miðvikudag og fimmtudag:

Norðan 5-10 m/s, en 8-13 austast á landinu. Skýjað norðan- og austanlands og dálítil rigning eða súld með köflum. Bjartviðri um landið sunnan- og suðvestanvert. Hiti 7 til 19 stig, hlýjast á Suðurlandi.

Á föstudag:

Norðan 3-10 m/s. Rigning norðaustantil, annars skýjað með köflum og úrkomulítið en bjartviðri suðvestantil. Hiti 6 til 12 stig N-til en 10-16 stig syðra.

Á laugardag:

Áframhaldandi norðlæg átt, skýjað og þurrt að kalla um landið norðanvert en bjartviðri sunnan jökla. Fremur svalt fyrir norðan en hiti 10 til 15 stig um landið sunnanvert.

Á sunnudag:

Fremur hæg norðlæg átt. Bjartviðri sunnan jökla, annars skýjað og víða þokusúld eða dálítil væta. Hiti breytist lítið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×