Viðskipti erlent

iPhone sala dregst saman aftur

Sæunn Gísladóttir skrifar
Sala á iPhone snjallsímum dróst saman um fimmtán prósent á síðasta ársfjórðungi.
Sala á iPhone snjallsímum dróst saman um fimmtán prósent á síðasta ársfjórðungi. Vísir/Getty
Sala á iPhone snjallsímum dróst saman annan ársfjórðunginn í röð. Á þriðja ársfjórðungi Apple seldust 40,4 milljón eintök af snjallsímanum, sem er fimmtán prósent samdráttur samanborið við árið áður.

Á fjórðungnum á undan dróst iPhone sala saman milli ára í fyrsta sinn og olli það hlutabréfahruni hjá fyrirtækinu.

Fjöldi seldra síma var hins vegar yfir væntingum markaðsaðila, sem spáðu því að 40,02 milljón eintök myndu seljast.

Forsvarsmenn Apple greindu frá því að þeir spá því að sala muni dragast aftur saman á núverandi fjórðungi.

Sjá einnig: Hvað er að gerast hjá Apple?

iPhone er vinsælasta vara Apple og nemur varan tveimur þriðju af heildarsölu Apple og stærra hlutfalli af hagnaði fyrirtækisins. Minni sala olli 27 prósent minni hagnaði á síðasta ársfjórðungi, samanborið við árið áður.

Sala dróst saman um 33 prósent í Kína, Hong Kong og Taiwan. Forsvarsmenn Apple bentu á að minni efnahagsumsvif í Kína bæru meðal annars ábyrgð á þróuninni. Sterkara gengi dollara hafði einnig áhrif.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×