Íslenski boltinn

Eyjakonur áfram á sigurbraut | Söndrurnar sáu um Fylki | Myndir

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Tveimur leikjum er lokið í 8. umferð Pepsi-deildar kvenna í fótbolta.

Þór/KA gerði góða ferð í Árbæinn og vann 0-2 sigur á Fylki.

Jóhanna K. Andrésdóttir, ljósmyndari Fréttablaðsins og Vísis, var á Flórídana-vellinum og tók meðfylgjandi myndir.

Nöfnurnar Sandra María Jessen og Sandra Stephany Mayor Gutiérrez skoruðu mörk gestanna sem eru búnir að vinna þrjá af síðustu fjórum deildarleikjum sínum.

Söndurnar hafa verið drjúgar fyrir Þór/KA í sumar en þær eru báðar komnar með fimm mörk í deildinni og búnar að skora 10 af 16 mörkum liðsins.

Þór/KA er í 4. sæti deildarinnar með 14 stig en Fylkir, sem mistókst að fylgja eftir sigrinum á FH í síðustu umferð, í því sjöunda með sjö stig.

ÍBV vann sinn þriðja sigur í röð í deild og bikar þegar liðið lagði FH að velli, 2-0, á Hásteinsvelli.

Cloe Lacasse kom Eyjakonum í 1-0 strax á 2. mínútu og Sigríður Lára Garðarsdóttir bætti öðru marki við úr vítaspyrnu á 58. mínútu.

Lacesse og Sigríður Lára hafa báðar skorað í síðustu þremur leikjum ÍBV sem hafa allir unnist eins og áður sagði.

ÍBV er í 5. sæti deildarinnar með 12 stig en Eyjakonur eru heldur betur vaknaðar eftir slæma byrjun á tímabilinu.

Það gengur hins vegar lítið hjá FH sem er búið að tapað fimm leikjum í röð. Fimleikafélagið er í 8. sæti með sjö stig og hefur aðeins skorað þrjú mörk í átta fyrstu umferðunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×