Fótbolti

Vafasamt fæðubótarefni fannst í klefa Frakka á EM: "Þetta er lyfjamisnotkun“

Tómas Þór Þórðarson skrifar
vísir/getty/bild

Fæðubótarefnið Guronsan fannst í búningsklefa franska landsliðsins í fótbolta eftir undanúrslitaleikinn á EM 2016 gegn Þýskalandi sem heimamenn unnu, 2-0. Þýskur prófessor vill meina að Frakkar hafi hreinlega verið að svindla.

Það er þýska blaðið Bild sem greinir frá en blaðamaður þess náði myndum af fæðubótarefninu í klefa franska liðsins eftir leik Frakklands og Þýskalands í undanúrslitum í Marseille.

„Fyrir mér er þetta lyfjamisnotkun,“ segir prófessorinn Fritz Sörgel í samtali við Bild um þetta efni. Sörgel er yfirmaður rannsóknarstofu í Heroldsberg sem sérhæfir sig í líflæknisfræði. Hann hefur einnig starfað fyrir Alþjóðaíþróttadómstólinn.

Guronsan er ekki á bannlista WADA og gerðu Frakkar því í raun ekkert rangt samkvæmt alþjóðareglum en þýski prófessorinn er ekki á sama máli.

Antoine Griezmann, besti leikmaður EM, og Aron Einar í baráttunni á Stade de France.vísir/getty

Árangursbætandi áhrif

„Það er koffín í efninu og koffín hefur árangursbætandi áhrif á frammistöðu í íþróttum. Það er sannað. Það bætir viðbragðstíma og þess vegna er þetta lyfjamisnotkun,“ segir Sörgel.

Á Facebook-síðu fæðubótarefnisins segir: „Guronsan hreinsar eiturefni úr líkamanum og hefur þannig hressandi og örvandi áhrif á endurheimt líkamans sem dregur úr andlegri þreytu og streitu.“

Efnið má nota á hverjum degi og við öll tilefni að því kemur fram á heimasíðu portúgalska fyrirtækisins Jaba Recordati sem framleiðir Guronsan.

Bild hafði samband við franska knattspyrnusambandið sem vildi ekki tjá sig um málið og einnig hefur sænska blaðið Expressen reynt að hafa samband við portúgalska framleiðandann, en án árangurs.

Frakkar völtuðu yfir Ísland, 5-2, í átta liða úrslitum EM áður en þeir tóku Þjóðverja 2-0 í undanúrslitum. Þeir spiluðu úrslitaleikinn á Stade de France en töpuðu fyrir Portúgal í framlengdum leik.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×