Erlent

Árásarmaðurinn ekki á lista yfir hryðjuverkamenn

Gunnar Reynir Valþórsson skrifar
Ekki hefur verið opinberað hver árásarmaðurinn er en Reuters fréttastofan greinir frá því að um sé að ræða  þrjátíu og eins árs gamlan mann af frönskum og túnískum uppruna.
Ekki hefur verið opinberað hver árásarmaðurinn er en Reuters fréttastofan greinir frá því að um sé að ræða þrjátíu og eins árs gamlan mann af frönskum og túnískum uppruna. vísir/afp
Að minnsta kosti áttatíu og fjórir eru látnir og átján eru alvarlega slasaðir eftir að stórum hvítum trukki var ekið inn í mannþröng í Nice í Frakklandi um klukkan níu í gærkvöldi. Mörg börn eru sögð á meðal hinna látnu. Fjöldi fólks var samankominn á Promenade de Ainglese breiðgötunni til að horfa á tilkomumikla flugeldasýningu í tilefni af þjóðhátíðardegi Frakka sem var í gær, 14. júlí.

Að sögn sjónarvotta kom trukkurinn inn í mannhafið á mikilli ferð og náði ökumaðurinn að keyra um tveggja kílómetra leið í gegnum mannþröngina áður en lögreglumenn skutu hann til bana. Fregnir herma að maðurinn hafi einnig skotið af byssu út um glugga trukksins en þær hafa þó ekki verið staðfestar. Yfirvöld hafa þó staðfest að skotvopn og sprengiefni hafi fundist í bílnum. Ljóst virðist að um hryðjuverk hafi verið að ræða en þó hafa engin samtök lýst ábyrgðinni á hendur sér.

Ekki hefur verið opinberað hver árásarmaðurinn er en Reuters fréttastofan greinir frá því að um sé að ræða  þrjátíu og eins árs gamlan mann af frönskum og túnískum uppruna. Hann mun hafa komist í kast við lögin áður en var þó ekki á sérstökum listum um grunaða hryðjuverkamenn.

Neyðarástand sem verið hefur í Frakklandi frá því í Nóvember þegar 130 fórust í árásunum í París átti að renna út síðar í mánuðinum en það hefur nú verið framlengt um þrjá mánuði.

Francois Hollande Frakklandsforseti sagði í ávarpi til frönsku þjóðarinnar í nótt að Frökkum stæði mikil ógn af íslömskum hryðjuverkasamtökum. Enn og aftur hefði hryllingur dunið á Frönsku þjóðinni.


Tengdar fréttir

Myndir frá Nice

Mikil ringulreið ríkir nú á götum Nice þar sem óttast að yfir 70 manns hafi látist í því sem virðist hafa verið skipulögð árás.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×