Íslenski boltinn

Mikilvægir útisigrar hjá ÍA og Fylki í kvöld

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sandra Sif Magnúsdóttir skoraði tvö mörk fyrir Fylki í kvöld.
Sandra Sif Magnúsdóttir skoraði tvö mörk fyrir Fylki í kvöld. Vísir/Vilhelm
Skagastúlkur fögnuðu sínum fyrsta sigri í Pepsi-deild kvenna í sumar í kvöld þegar þær unnu útisigur í Vesturbæ Reykjavíkur og Fylkiskonur fjarlægðust fallbaráttuna með sigri á Selfossi.

ÍA-liðið er áfram á botninum en nú með fjögur stig og bara þremur stigum frá öruggu sæti. Fylkiskonur komust aftur á móti upp fyrir Selfoss og í sjötta sæti deildarinnar en Árbæjarkonur eru nú fjórum stigum frá fallsæti.

Megan Dunnigan skoraði bæði mörk Skagastúlkna í 2-0 útisigri á KR í kvöld en hún hefur þar með skorað öll þrjú mörk Skagaliðsins í sumar.

ÍA hafði aðeins fengið eitt stig í fyrstu átta leikjum sínum og það kom í hús í Árbænum þegar Megan Dunnigan jafnaði metin í uppbótartíma.

Megan Dunnigan kom ÍA í 1-0 strax á 6. mínútu og hún innsiglaði síðan sigurinn ellefu mínútum fyrir leikslok.

Skagamenn eru því með fullt hús á KR-vellinum í sumar því karlaliðið vann þar einnig góðan sigur á dögunum.

Sandra Sif Magnúsdóttir tryggði Fylki 3-1 sigur á Selfossi með því að skora tvö mörk á síðustu níu mínútum leiksins. Þetta var aðeins annar sigur Fylkisliðsins í deildinni.

Lauren Elizabeth Hughes kom Selfossi í 1-0 á 29. mínútu og þannig var staðan þar til að varamaðurinn Shu-o Tseng jafnaði aðeins tveimur mínútum eftir að hafa komið inná í hálfleik.

Sandra Sif Magnúsdóttir skoraði síðan tvö mörk í lokin, það fyrra á 81. mínútu en það síðara á 89. mínútu.

Upplýsingar um markaskorara eru fengar frá vefsíðunni fótbolti.net.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×