Eins og Vísir greindi frá í morgun vann Birkir Már fullnaðarsigur á hlaupabretti í Bolungarvík fyrir nokkrum árum þegar hann var að halda sér í formi í jólafríi heima á Íslandi. Eiginkona hans, Stebba Sigurðardóttir, er frá víkinni fögru.
Birkir sagðist vel muna eftir því þegar hann tók á mikinn sprett á hlaupabrettinu sem endaði á því að það gaf sig. Hann hafi þó ekki vitað hvort því hafi verið komið í stand aftur eða ekki. Gunnar svarar þeirri spurningu.
Að neðan má sjá Birki Má ræða hlaupabrettið og ást sína á Bolungarvík. Birkir svarar spurningu sem undirritaður þurfti reyndar að bera tvisvar upp sökum svefnleysis. Spurningunni er svarað eftir sex mínútur.
„Ef Frakkarnir verða að lúta í gras fyrir drengjunum okkar, þá er borðleggjandi að setja verður upp einhvern minningarreit til minjar um þolraun og þau örlög brettisins sem hafði ekki verið spretti kappans,“ segir Gunnar.

„Þrátt fyrir tjónið síðast var ákveðið, hér í Musterinu, að bjóða Birki að taka sprettinn á þessum grip næst þegar hann kemur í Víkina,“ segir Gunnar.
„Það getur að vísu verið nokkur fjárhagslegur baggi fyrir lítið sveitarfélag ef kaupa þarf nýtt hlaupabretti í hvert sinn sem Birkir tekur hér sprettinn. En hvað erum við ekki tilbúin að leggja á okkur til að styðja og efla íþróttahetjurnar okkar.“
Ekki missa af neinu sem gerist á EM í Frakklandi. Vísir er með hóp fjölmiðlamanna á mótinu sem færa ykkur allar nýjustu fréttirnar af strákunum okkar. Fylgdu okkur á Facebook , Twitter og Snapchat (sport365).