Íslenski boltinn

Umfjöllun: ÍBV - Selfoss 5-0 | Lacasse með þrennu í stórsigri Eyjakvenna

Guðmundur Tómas Sigfússon skrifar
Eyjakonur eru komnar í undanúrslit.
Eyjakonur eru komnar í undanúrslit. vísir/vilhelm
Cloe Lacasse skoraði þrennu þegar ÍBV rúllaði yfir Selfoss í 8-liða úrslitum Borgunarbikars kvenna á Hásteinsvelli í kvöld. Lokatölur 5-0, Eyjakonum í vil.

ÍBV er komið í undanúrslit ásamt Þór/KA sem vann Fylki á sama tíma. Á morgun mætast svo Stjarnan og Haukar annars vegar og Breiðablik og HK/Víkingur hins vegar.

Rebekah Bass kom Eyjakonum yfir á 24. mínútu þegar hún slapp inn fyrir vörn Selfyssinga eftir að Lacasse vann skallaeinvígi.

Lacasse skoraði svo annað mark heimakvenna eftir mikinn einleik á 41. mínútu og fjórum mínútum síðar skoraði hún öðru sinni eftir sendingu frá Bass. Staðan 3-0 í hálfleik.

Lacasse fullkomnaði svo þrennuna á 56. mínútu þegar hún kom boltanum framhjá Chante Sandiford í marki Selfyssinga eftir sendingu frá Sigríði Láru Garðarsdóttur sem átti svo síðasta orðið þegar hún skoraði úr vítaspyrnu þegar 10 mínútur voru til leiksloka.

Annar heimasigur ÍBV í sumar staðreynd en liðinu hefur ekki gengið sem best í Pepsi-deildinni þar sem það situr í 8. sæti.

Selfoss er hins vegar úr leik en liðið komst í bikarúrslit 2014 og 2015 þar sem það tapaði í bæði skiptin fyrir Stjörnunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×