Íslenski boltinn

Stjarnan kláraði Hauka | Breiðablik lét eitt mark duga

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Donna Kay Henry skoraði annað mark Stjörnunni í upphafi seinni hálfleiks.
Donna Kay Henry skoraði annað mark Stjörnunni í upphafi seinni hálfleiks. vísir/anton
Stjarnan og Breiðablik komust nú rétt í þessu í undanúrslit Borgunarbikars kvenna.

Stjörnukonur, bikarmeistarar síðustu tveggja ára, unnu öruggan 4-0 sigur á 1. deildarliði Hauka á Samsung-vellinum í Garðabæ.

Jenna McCormick kom Stjörnunni í 1-0 á 6. mínútu og þannig var staðan í hálfleik. Donna Kay Kenry bætti öðru marki við á 49. mínútu en hún er komin með þrjú mörk í Borgunarbikarnum í ár.

Þórdís Hrönn Sigfúsdóttir skoraði þriðja markið á 71. mínútu og varamaðurinn Katrín Ásbjörnsdóttir átti svo síðasta orðið þegar hún skoraði fjórða mark Stjörnunnar tveimur mínútum fyrir leikslok.

Íslandsmeistarar Breiðabliks tóku á móti grönnum sínum í HK/Víkingi og létu eitt mark duga.

Það gerði Arna Dís Arnþórsdóttir á 37. mínútu en þetta var hennar fyrsta mark fyrir Breiðablik í deild og bikar. Arna byrjaði tímabilið í láni hjá FH en sneri aftur í Kópavoginn undir lok síðasta mánaðar.

Blikar voru mun sterkari aðilinn í leiknum á Kópavogsvelli í kvöld og fengu m.a. 19 hornspyrnur. Íslandsmeisturunum tókst samt bara einu sinni að koma boltanum framhjá Björk Björnsdóttur í marki HK/Víkings.

Stjarnan, Breiðablik, Þór/KA og ÍBV eru komin í undanúrslit en dregið verður í hádeginu á morgun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×