Íslenski boltinn

Mexíkósk sveifla fyrir norðan | Margrét Lára hetja Vals

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Margrét Lára tryggði Val sigur á Akranesi.
Margrét Lára tryggði Val sigur á Akranesi. vísir/vilhelm
Þremur leikjum er lokið í 7. umferð Pepsi-deildar kvenna.

Mexíkósku landsliðskonurnar Stephany Mayor og Natalia Gómez Junco voru í aðalhlutverkum þegar Þór/KA vann góðan 3-0 sigur á Selfossi fyrir norðan.

Stephany skoraði tvö fyrstu mörk Þórs/KA á fyrstu 24 mínútum leiksins en hún er búin að skora í fjórum af síðustu fimm leikjum Akureyringa. Natalia bætti svo þriðja markinu við á 85. mínútu.

Þór/KA er í 4. sæti deildarinnar með 11 stig, tveimur stigum á undan Selfossi sem er í 6. sætinu.

Margrét Lára Viðarsdóttir skoraði eina mark leiksins þegar Valur sótti ÍA heim.

Valskonur hafa unnið fjóra af síðustu fimm leikjum sínum og eru komnar með 14 stig í 3. sæti deildarinnar.

Margrét Lára kom Val í 0-1 á 10. mínútu en gestirnir náðu ekki að skora fleiri mörk gegn botnliði ÍA sem á enn eftir að vinna leik í sumar.

Margrét Lára er nú komin með fimm mörk í Pepsi-deildinni í sumar en Harpa Þorsteinsdóttir er sú eina sem hefur gert fleiri (9).

Þá rúllaði ÍBV yfir KR á Alvogen-vellinum, 0-5.

Eyjakonur eru komnar með níu stig og upp í 5. sæti deildarinnar. KR er hins vegar í 8. sæti með sex stig.

Cloe Lacasse og Rebekah Bass skoruðu tvö mörk hvor fyrir ÍBV og Sigríður Lára Garðarsdóttir eitt. Þær skoruðu einnig allar í 5-0 sigrinum á Selfossi í 8-liða úrslitum Borgunarbikarsins á mánudaginn.

Úrslitin í kvöld:

Þór/KA 3-0 Selfoss

1-0 Sandra Stephany Mayor Gutierrez (2.), 2-0 Gutierrez (24.), 3-0 Natalia Ines Gomez Junco Esteva (85.).

ÍA 0-1 Valur

0-1 Margrét Lára Viðarsdóttir (10.).

KR 0-5 ÍBV

0-1 Cloe Lacasse (4.), 0-2 Sigríður Lára Garðarsdóttir (13.), 0-3 Rebekah Bass (40.), 0-4 Lacasse (80.), 0-5 Bass, víti (87.).




Fleiri fréttir

Sjá meira


×