„Þetta er ólýsanlegt. Að gera þetta með sínum bestu vinum er frábært,“ sagði Kári Árnason, sem var valinn maður leiksins gegn Austurríki af UEFA, á blaðamannafundi eftir leikinn á Stade de France í kvöld.
„Þannig líður okkur öllum. Við erum þéttur hópur. Þetta er líka extra skemmtilegt að fá að gera þetta við hliðina á þeim.“
Hann hrósaði stuðningsmönnum Íslands óspart.
„Þetta er eins og að vera með fjölskylduna manns á vellinum. Maður þekkir 50 prósent af liðinu sem er á leiknum.“
Hann segir það ótrúlega tilhugsun að mæta Englandi í 16-liða úrslitum mótsins.
„Ég hef alltaf haldið með Englandi á stórmótunum, enda höfum við ekki verið á þeim. Þetta er draumur að verða að veruleika.“
„En við erum ekki saddir. Við ætlum að fara í þann leik til að ná úrslitum. Það er alveg ljóst.“
Kári fékk spurningu frá frönskum blaðamanni um fyrra mark Íslands en hann framlengdi innkast Arons Einars Gunnarssonar á Jón Daða Böðvarsson, sem skoraði.
„Þetta er eitthvað sem við erum búnir að æfa. Ég vil ekki gefa of mikið upp en þetta er möguleiki fyrir Aron Einar, að gefa á mig. Ég var gegn bakverði og þá á ég að geta unnið skallaeinvígið í níu tilvikum af tíu.“
Kári: Ólýsanlegt að gera þetta með mínum bestu vinum
Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar

Mest lesið



Baðst afsökunar á tæklingunni í Garðabænum
Íslenski boltinn




Liverpool tilkynnir um risasamning við Adidas
Enski boltinn


