Íslenski boltinn

Eitt mark dugði Blikum | Þór/KA rúllaði yfir FH

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Fanndís átti þátt í sigurmarki Blika.
Fanndís átti þátt í sigurmarki Blika. vísir/ernir
Íslandsmeistarar Breiðabliks unnu sinn annan leik í röð þegar liðið sótti Fylki heim í Árbæinn í 5. umferð Pepsi-deildar kvenna í dag.

Aðeins eitt mark var skorað en það gerði hin 18 ára Esther Rós Arnarsdóttir á 73. mínútu eftir að skalli Fanndísar Friðriksdóttur fór í stöngina.

Þetta var annað mark Estherar í sumar en hún lék sem lánsmaður með ÍBV í fyrra.

Það gengur hvorki né rekur hjá Fylki sem hefur ekki enn unnið leik í Pepsi-deildinni í sumar; gert þrjú jafntefli og tapað tveimur leikjum. Liðið hefur aðeins skorað fjögur mörk en aðeins FH hefur gert færri (2).

Þór/KA er komið upp í 4. sæti Pepsi-deildarinnar.vísir/anton
Þór/KA átti ekki í miklum vandræðum með að leggja FH að velli í Kaplakrika. Lokatölur 0-4, Akureyringum í vil.

Með sigrinum komst Þór/KA upp í 4. sæti deildarinnar en liðið hefur halað inn átta stig í fyrstu fimm umferðunum.

FH er í sætinu fyrir neðan en nýliðarnir hafa tapað tveimur leikjum í röð eftir frábæra byrjun á tímabilinu.

Landsliðskonan Sandra María Jessen kom Þór/KA yfir á 37. mínútu eftir sendingu frá nöfnu sinni, Stephany Mayor Gutierrez. Þetta var fjórða mark Söndru Maríu í deildinni á tímabilinu.

Staðan var 0-1 í hálfleik og allt fram á 60. mínútu þegar hin mexíkóska Gutierrez skoraði sitt annað deildarmark í sumar.

Andrea Mist Pálsdóttir jók muninn í 0-3 fimm mínútum síðar og Natalia Ines Gomez Junco Esteva skoraði svo fjórða markið tíu mínútum fyrir leikslok.

Upplýsingar um úrslit og markaskorara eru fengnar af urslit.net og fotbolti.net.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×