Upplausn ríkir nú í herbúðum breska Verkamannaflokksins eftir að almenningur í Bretlandi samþykkti naumlega í þjóðaratkvæðagreiðslu að yfirgefa Evrópusambandið. Jeremy Corbyn, leiðtogi flokksins, hefur bersýnilega glatað trausti margra samflokksmanna sinna en segist ekki ætla að segja af sér.
Verkamannaflokkurinn studdi opinberlega áframhaldandi aðild Breta að Evrópusambandinu en Corbyn hefur legið undir ámæli fyrir að ljá málstaðnum ekki nægilega kröftuga rödd í aðdraganda þjóðaratkvæðagreiðslunnar. Sjálfur hefur Corbyn ítrekað gagnrýnt sambandið og hafa fáir leiðtogar flokksins sýnt því minni áhuga í gegnum árin.
Fyrr í dag var Hilary Benn rekinn úr svokölluðu skuggaráðuneyti Verkamannaflokksins eftir að hafa sagt að Corbyn nyti ekki lengur trausts síns. Síðan þá hafa níu skuggaráðherrar til viðbótar yfirgefið ráðuneyti Corbyn og tveir þingmenn flokksins hafa lagt fram vantrauststillögu á leiðtogann, sem gæti verið tekin fyrir á þingflokksfundi á morgun að því er breska ríkisútvarpið greinir frá.
Talsmaður Corbyn segir þó í dag að hann muni ekki segja af sér sem leiðtogi Verkamannaflokksins.
Sem kunnugt er, ríkir mikil óvissa í breskum stjórnmálum í kjölfar þjóðaratkvæðagreiðslunnar á fimmtudag. David Cameron forsætisráðherra sagði af sér á föstudag og Nicola Sturgeon, fyrsti ráðherra Skotlands, hefur sagt að til greina komi að Skotar reyni að berjast gegn útgöngu Breta úr Evrópusambandinu.
Breska stjórnarandstaðan í molum í kjölfar Brexit

Tengdar fréttir

Ráðvilltir Bretar spyrja Google hvað gerist næst
Bretar virðast margir hverjir ekki vera með á hreinu hvað Brexit mun hafa í för með sér.

Sturgeon vill samtal við ráðamenn í Brussel til að tryggja stöðu Skota í ESB
Telur miklar líkur á annarri þjóðaratkvæðagreiðslu um sjálfstæði Skota.

Höfuð fjúka vegna útgöngu Breta
Ráðamenn innan Evrópusambandsins segja Breta verða að fara strax. Glundroði ríkti í fjár