Byrjunarlið Íslands þennan dag var svona: Árni Gautur Arason, Indriði Sigurðsson, Pétur Marteinsson, Hermann Hreiðarsson, Þórður Guðjónsson, Arnar Grétarsson, Jóhannes Karl Guðjónsson, Heiðar Helguson, Eiður Smári Guðjohnsen og Helgi Sigurðsson.
Pétur Marteinsson, sem er hluti af teymi Símans á Evrópumótinu, man vel eftir leiknum.
„Ég ætlaði að segja því miður en þetta var upplifun,“ segir Pétur í samtali við Vísi.
„Þarna voru þeir með frábært lið. Beckham, Scholes og Owen með Rooney frammi.“
Pétur Marteins rifjar upp 6-1 leikinn í spilaranum að neðan.
„Ég man eftir því fyrir leik að þá kemur sænski þjálfarinn þeirra Sven Göran Eriksson inn í klefa til okkar og segir: „Hey strákar, þetta er síðasti leikur fyrir stórmót, „take it easy“. Engar tæklingar, ekkert rugl,“ rifjar Pétur upp brosandi.
„Svo förum við út á völl og eftir þrjár til fjórar mínútur kom Paul Scholes fljúgandi í Heiðar Helgu, negldi hann með tökkunum fyrir ofan hné,“ segir Pétur. Augljóst rautt spjald að hans mati en Scholes slapp eins og svo oft áður.
„Þannig að þeir fóru ekki eftir þessari reglu hjá Sven Göran,“ segir Pétur. Wayne Rooney skoraði tvö mörk í leiknum, annað með glæsilegu langskoti, og allt gekk upp hjá þeim að sögn Péturs og grínast:
„Ekki eins mikið hjá okkur.“
Mörkin úr leiknum í Manchester 2004 má sjá í spilaranum að neðan.
Blaðamaður ákvað að spyrja Wayne Rooney út í þennan leik fyrir tólf árum á blaðamannafundi í Nice í gær.
„Já, ég man eftir leiknum,“ sagði Rooney á fundinum. „Ég vissi reyndar ekki að Sven Göran hefði gert þetta.“
Leikurinn hefði verið góður undirbúningsleikur og gott hefði verið að vinna hann.
Svar Rooney má sjá eftir 13 mínútur og 30 sekúndur í spilaranum að neðan.