Halla Tómasdóttir, athafnakona, bætir mestu við sig frá síðustu könnun og fær nú liðlega 12 prósent og er nú komin upp fyrir Andra Snæ Magnason, rithöfund, sem dalar lítillega frá síðustu könnun. Davíð Oddsson er með næst mesta fylgið, eða tæp 16 prósent, en dalar líka frá síðustu könnun.

Andri Snær virðist hafa fundið sinn kjósendahóp og situr sem fastast áfram með fylgið 11 prósent. Það merkilegasta við könnunina er ef til vill að Halla mælist í fyrsta sinn í kosningabaráttunni með meira fylgi en Andri Snær og nálgast Davíð óðfluga. Halla hefur verið að sækja í sig veðrið á undanförnum mánuði en í könnun stofnunarinnar fyrir mánuði mældist Halla aðeins með 1,5 prósent fylgi.
Aðrir frambjóðendur eru talsvert langt á eftir efstu fjórum frambjóðendunum en af þeim nýtur Sturla Jónsson mest fylgis með 2,2 prósent. Ástþór Magnússon mælist með 1,7 prósent fylgi, Elísabet Jökulsdóttir með 1,1 prósent, Guðrún M. Pálsdóttir með 0,5 prósent og Hildur Þórðardóttir rekur lestina með 0,2 prósent. Þau bæta þó öll lítillega við fylgi sitt.
Könnunin var framkvæmd í netpanel Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands og náði til 2000 meðlima netpanelsins. Svarhlutfallið var 54 prósent. Hópur kjósenda á bakvið hvern frambjóðanda er nokkuð áhugaverður en sem fyrr hefur Guðni Th. mest fylgi á meðal yngri kjósenda, 18-29, en næstur á eftir honum er Andri Snær sem hefur 20 prósent fylgi meðal kjósendahópsins. Guðni nýtur einnig mesta fylgisins á meðal eldri kjósenda en hann er með 59 prósent hjá kjósendum 60 ára og eldri. Á eftir honum fylgir Davíð sem hefur atkvæði 26 prósent eldri kjósenda.