Lífið

Secret Solstice: Die Antwoord seinkar vegna forfalla flugumferðarstjóra

Bjarki Ármannsson skrifar
Yolandi Visser og félagar í Die Antwoord stíga á svið seinna en auglýst var.
Yolandi Visser og félagar í Die Antwoord stíga á svið seinna en auglýst var. Vísir
Tónleikum suður-afrísku hljómsveitarinnar Die Antwoord á Secret Solstice tónleikahátíðinni í kvöld hefur verið seinkað og þeir færðir til.

Líkt og greint var frá fyrr í dag, var Keflavíkurflugvelli lokað í hálftíma í morgun vegna forfalla hjá flugumferðarstjórum. Seinkanir hafa verið á millilandaflugi fram eftir degi og ku það vera ástæða seinkunarinnar, þar sem hljómsveitin komst ekki hingað til lands fyrr en langt á eftir áætlun.

Hljómsveitin átti að stíga á svið rétt fyrir klukkan sjö í kvöld en að sögn Óskar Gunnarsdóttur, kynningarfulltrúa Secret Solstice, mun það koma í ljós síðar í dag klukkan hvað tónleikarnir verða.

Ljóst er þó að færa þarf tónleikana og stendur nú til að Die Antwoord spili á sviðinu Hel, sem er í gömlu Laugardalshöllinni.

UPPFÆRT:

Tónleikarnir verða haldnir í Hel í kvöld klukkan ellefu. Sjá hér.

Margir bíða tónleika sveitarinnar með eftirvæntingu og ljóst er að sú bið lengist nú talsvert.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×