Viðskipti erlent

Google kennir sjálfkeyrandi bílum sínum að flauta

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Engin þörf á þessu í framtíðinni.
Engin þörf á þessu í framtíðinni. Vísir/Getty
Sjálfkeyrandi bílar Google eru nú þegar í þróun og eru margir þeirra komnir á götur Bandaríkjanna þar sem verið er að þróa og straumlínulaga alla þætti þeirra áður en þeir koma á almennan markað. Eitt af því sem þarf að vera í lagi er flautan og þróar Google nú leiðir til þess að kenna bílunum að flauta í réttum aðstæðum.

Í nýrri skýrslu Google kemur fram að stefnt sé að því bílarnir að verði kurteisir og hófsamir þegar kemur að notkun flautunnar.

Bleika formið táknar bakkandi bíl, sjálfkeyrandi bíllinn flautar.Mynd/Google
„Hugbúnaðurinn er hannaður til þess að koma auga á það þegar flaut getur hjálpað til við að vekja athygli annarra ökumanna sem eru að begyja inn á akreinar eða bakka úr heimreiðum,“ segir í skýrslunni.

Til þess að ganga úr skugga um að sjálfkeyrandi bílarnir flauti nú aðeins þegar nauðsyn krefur er Google því að kenna bílunum hvenær viðeigandi sé að flauta. Þeir sem prófa bílana skrá niður í hvert skipti sem bílinn flautar í óviðeigandi aðstæðum svo að hægt sé að finna hvað veldur og koma í veg fyrir það.

Google hefur kennt bílunum tvær tegundir af flauti, annars vegar tvo stutt flaut sem nota á þegar einhver bakkar bíl sínum hægt í átt að sjálfkeyrandi bílnum, og hins vegar eitt langt sem nota í meira áríðandi tilvikum.

Stefnt er að því að bílarnir komi á markað árið 2020.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×