Innlent

Íslensk stúlka dæmd í fimm ára fangelsi í Brasilíu fyrir fíkniefnasmygl

Nanna Elísa Jakobsdóttir skrifar
Hald var lagt á átta kíló af kókaíni.
Hald var lagt á átta kíló af kókaíni.
Tvítug íslensk stúlka sem setið hefur í fangelsi í Fortaleza í Brasilíu síðan í desember á síðasta ári var í dag dæmd til rúmlega fimm ára fangelsisvistar fyrir fíkniefnasmygl. Frá þessu er greint á DV.

Stúlkan, sem heitir Birgitta Gyða Bjarnadóttir, var handtekin ásamt 26 ára gömlum kærasta sínum að kvöldi annars í jólum í Fortaleza en bærinn er í norðausturhluta Brasilíu.

Parið var handtekið eftir að ábending barst um ætlað smygl þeirra og í kjölfarið fundust í fórum þeirra um átta kíló af kókaíni. Efnin voru falin í smokkum og fölskum botnum á þremur ferðatöskum.

Sá tími sem Birgitta hefur setið í gæsluvarðhaldi dregst frá dóminum en samkvæmt DV er möguleiki á að hún verði látin laus úr fangelsinu eftir um tvö eða tvö og hálft ár.

Aðbúnaður í brasilískum fangelsum er þekktur fyrir að vera einkar slæmur. Hefur ástandið í almennum fangelsum landsins verið sagt ómannúðlegt. Í fangaklefa sem ætlaður er fyrir einn til tvo einstaklinga dvelja stundum fimmtán til tuttugu manns.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×