Íslenski boltinn

Karen Nóa: "Við erum ekki í þessari deild til þess að leika okkur“

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Fyrirliði Þórs/KA segir að stígandi sé í leik liðsins eftir erfiða byrjun.
Fyrirliði Þórs/KA segir að stígandi sé í leik liðsins eftir erfiða byrjun.
„Við komum hingað til að taka þrjú stigin en fyrirfram hefði maður kannski sætt sig við eitt stig. Maður vill samt alltaf stigin þrjú, hvort sem það er heima eða úti,“ sagði Karen Nóadóttir, fyrirliði Þórs/KA ansi rám eftir að hafa öskrað sitt lið áfram í kvöld þegar Þór/KA gerði jafntefli á útivelli gegn ríkjandi Íslandsmeisturum Breiðabliks.

Mjög hvasst var á Kópavogsvelli í kvöld og telur Karen að það hafi haft áhrif á spilamennsku leikmanna í kvöld.

„Það var mjög hvasst og þetta var örugglega ekki fallegasti fótboltaleikurinn í kvöld á að horfa,“ segir Karen en bendir á að vindurinn hafi ekki gert upp á milli liða, hann hafi haft jöfn áhrif á bæði lið.

Norðanstúlkur geta vel við unað með fjögur stig eftir tvær ferðir á erfiðustu útivelli landsins, gegn Stjörnunni og Blikum og segir Karen að liðið sé nú farið að bæta upp fyrir slæma frammistöðu í fyrsta leik liðsins.

„ Við vorum eins og algjörir aular í fyrsta leiknum gegn Stjörnunni en nú erum við að sýna öllum það og svara fyrir það. Við erum ekki í þessari deild til þess að leika okkur og sparka með vinstri. Við ætlum okkur að ná árangri,“ segir Karen nokkuð sátt eftir leik kvöldsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×