Íslenski boltinn

Titilvörn Blika byrjar vel | Margrét Lára skoraði í endurkomuleiknum

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Margrét Lára var ekki lengi að skora í endurkomuleiknum.
Margrét Lára var ekki lengi að skora í endurkomuleiknum. vísir/vilhelm
Íslandsmeistarar Breiðablik hófu titilvörnina með 4-1 sigri á KR í 1. umferð Pepsi-deild kvenna á Kópavogsvelli í kvöld.

Andrea Rán Snæfeld Hauksdóttir, efnilegasti leikmaður Pepsi-deildarinnar í fyrra, skoraði tvö mörk fyrir Blika í kvöld og þær Fanndís Friðriksdóttir og Rakel Hönnudóttir sitt markið hvor.

Eydís Lilja Eysteinsdóttir lagaði stöðuna fyrir KR sem var spáð neðsta sæti deildarinnar í árlegri spá þjálfara, fyrirliða og forráðamanna Pepsi-deildarinnar.

Margrét Lára Viðarsdóttir lék sinn fyrsta leik í efstu deild hér á landi í átta ár þegar Valur og Fylkir skildu jöfn, 2-2, á Flórídana-vellinum í Árbænum.

Margrét Lára var ekki lengi að koma sér á blað en landsliðsfyrirliðinn kom Valskonum yfir á 16. mínútu.

Þannig var staðan allt fram á 68. mínútu þegar Ruth Þórðar Þórðardóttir jafnaði metin. Berglind Björg Þorvalsdóttir kom Fylki svo yfir á 82. mínútu og allt stefndi í sigur Árbæinga.

En gestirnir gáfust ekki upp og Lilja Dögg Valþórsdóttir jafnaði metin fjórum mínútum fyrir leikslok og tryggði Val stig.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×