Erlent

Norska ríkið brýtur gegn mannréttindum Anders Breivik

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Breivik leiddur inn í salinn þegar mál hans gegn ríkinu var tekið fyrir í seinasta mánuði.
Breivik leiddur inn í salinn þegar mál hans gegn ríkinu var tekið fyrir í seinasta mánuði. Vísir/EPA
Norska ríkið hefur brotið gegn mannréttindum fjöldamorðingjans Anders Behring Breivik í fangelsi en héraðsdómstóll Oslóar kvað upp dóm sinn í máli Breivik gegn norska ríkinu í dag.

Breivik höfðaði málið þar sem hann taldi mannréttindi sín meðal annars brotinn vegna þess að hann er ítrekað látinn sæta líkamsleit, hann sætir einangrun og hann er vakinn á nóttunni. Þá fær hann að hafa takmörkuð samskipti við annað fólk.

Að mati dómsins eru líkamsleitirnar og sú mikla einangrun sem Breivik sætir brot á einu ákvæði Mannréttindasáttmála Evrópu. Norska ríkið hélt því fram fyrir dómi fangelsisvist hans væri að fullu leyti í samræmi við lög og reglur. Nauðsynlegt væri að hann sætti mikilli öryggisgæslu þar sem hann væri sérstaklega hættulegur maður. 

Hinn þrjátíu og sjö ára gamli Breivik var dæmdur í tuttugu og eins árs fangelsi árið 2012 fyrir að hafa drepið sjötíu og sjö manns árið 2011, annars vegar í sprengingu í miðborg Óslóar og hins vegar með því að skjóta alla þá sem á vegi hans urðu í Útey þar sem sumarbúðir ungliðadeildar Verkamannaflokksins voru.

Alls myrti hann átta manns í Osló og 69 manns í Útey, að mestu leyti ungt fólk. Ólíklegt þykir að honum muni nokkurn tímann verða sleppt.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×