Innlent

Lýstu eftir sér­fræðingum í ó­launuð störf á hvala­skoðunar­bátum

Bjarki Ármannsson skrifar
Bandalag háskólamanna (BHM) hefur sent hvalaskoðunarfyrirtækinu Eldingu erindi þar sem gerðar eru alvarlegar athugasemdir við auglýsingu fyrirtækisins eftir starfsfólki, sem BHM telur fela í sér skýrt brot á kjarasamningum og lögum.

Í auglýsingunni, sem nýlega var send út á opinn póstlista vísindamanna sem stunda rannsóknir á sjávarspendýrum, er óskað eftir tveimur sérfræðingum í ólaunuð sjálfboðastörf við rannsóknir á hegðun hvala. Tekið er fram að þörf sé á fólki vegna forfalla á síðustu stundu.

Auk vísindastarfa er í auglýsingunni gert ráð fyrir að starfsmennirnir annist afgreiðslustörf og þrif um borð í hvalaskoðunarbátum fyrirtækisins. Þeir þurfi að vera tilbúnir að vinna allt að fjórtán klukkustundir á dag og fá aðeins fæði og húsnæði fyrir.

„Bandalagið krefst þess að Elding Whale Watching greiði þeim sem ráðnir verða í umrædd störf að lágmarki þau laun sem kjarasamningar tilgreina sem lágmarkslaun fyrir störf af þessu tagi,“ segir meðal annars í tilkynningu BHM til fjölmiðla vegna málsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×