83 starfsmenn Sameinuðu þjóðanna yfirgáfu Vestur-Sahara í dag eftir að stjórnvöld í Marokkó ákváðu að vísa þeim úr landi. Harðar deilur hafa staðið um landsvæðið undanfarna daga.
Talsmaður Sameinuðu þjóðanna segir að ákvörðun Marokkóstjórnar sé mikið áfall fyrir friðargæslusveit stofnunarinnar í Vestur Sahara, Minurso, þar sem verið sé að reka bílstjóra, tæknimenn og fjarskiptasérfræðinga úr landi. Um fimm hundruð manns hafa skipað friðargæslusveitina.
Deilurnar blossuðu upp þegar Ban Ki-Moon, aðalritari Sameinuðu þjóðanna, reitti marokkósk stjórnvöld til reiði með því að segja Marokkóa hafa hernumið svæðið. Hann átti fund með fulltrúum sjálfstæðishreyfingarinnar Polisario fyrr í vikunni.
Sameinuðu þjóðirnar hafa frá árinu 1991 reynt að sjá til þess að samið sé um lausn á deilunni um landsvæðið sem er fyrrverandi spænsk nýlenda með landamæri að Marokkó og Alsír í norðri og norðaustri og Máritaníu í suðri. Marokkó lagði landið undir sig árið 1975.
Tugir starfsmanna Sameinuðu þjóðanna yfirgefa Vestur-Sahara
Atli Ísleifsson skrifar
