Fótbolti

Margrét Lára: Við spilum alltaf af innlifun og fögnum öllum sigrum

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Margrét Lára Viðarsdóttir, fyrirliði íslenska kvennalandsliðsins í fótbolta, var mjög ánægð með sigurinn á Belgíu í gær.

Stelpurnar okkar hófu leik með 2-1 sigri á Belgíu á Algarve-mótinu þar sem Dagný Brynjarsdóttir tryggði sigurinn með marki í uppbótartíma.

Sjá einnig:Dagný: Ekki klukka á vellinum þannig ég vissi ekki hvað var mikið eftir

„Það jákvæðasta við þetta er sigurinn. Þetta var alveg hörku leikur. Belgía er komið með þrusu gott lið og gerði okkur erfitt fyrir í dag. Við kláruðum leikinn, allar 94 mínúturnar, og skoruðum á lokamínútunni. Þetta verður ekki sætara en það,“ sagði Margrét Lára við SportTV eftir leikinn.

„Þær belgísku börðust eins og ljón og voru svo nokkuð góðar með boltann þannig við þurftum að hafa mikið fyrir þessu. Það er frábært að sjá hvernig við kláruðum þennan leik. Innkoma varamanna var frábær og sýnir hvað við erum komin með frábæra breidd í íslenska landsliðinu.“

Íslenska liðið fagnaði sigrinum vel og innilega en Margrét Lára segir það einfaldlega vera menningu sem hefur skapast innan liðsins að fagna öllum sigrum af innlifun.

Sjá einnig:Sjáðu mörkin sem stelpurnar skoruðu í gær

„Við skoruðum tvö mörk en í fyrra skoruðum við ekkert mark. Við erum búnar að brjóta þann múr og við hefðum getað skorað fleiri,“ sagði hún.

„Svona erum við bara. Við spilum alltaf af innlifun, það skiptir engu máli hvort við erum að spila æfingaleiki eða leiki á Evrópumóti. Þetta er menning sem við erum búnar að skapa og við munum alltaf fagna svona sama hvaða leik er um að ræða,“ sagði Margrét Lára Viðarsdóttir við SportTV.


Tengdar fréttir

Vilja að ég fljúgi beint frá Portúgal en ég fæ að fara heim

Dagný Brynjarsdóttir, leikmaður kvennalandsliðsins í fótbolta, vill að stelpurnar okkar byggi ofan á góða spilamennsku liðsins og vinni helst Algarve-mótið sem hefst í dag. Ísland mætir Belgíu í fyrsta leik mótsins. Dagný rétt fær að koma heim og pakka í tösku eftir mótið áður en nýtt ævintýri hefst í Portland.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×