Innlent

Veður versnar með morgninum

Samúel Karl Ólason skrifar
Vísir/Stefán
„Á Hellisheiði og í Þrengslum  versnar veður með morgninum. Frá hádegi og fram undir kl. 18-19 er reiknað með 15-18 m/s, hríðarveðri og skafrenningi.“ Þetta kemur fram í tilkynningu frá Vegagerðinni og segir að veður verði svipað í Þrengslum og á Mosfellsheiði.

Á láglendi hlánar og verður slydda eða rigning en ofan um 150 til 200 metra verður hríðarveður suðvestan- og vestanlands. Meðal annars eigi það við um Snæfellsnes og sunnanverða Vestfirði og einnig á Holtavörðuheiði og Bröttubrekku síðdegis.

Hálka er á Hellisheiði, í Þrengslum og á Mosfellsheiði. Þá sé hálka eða snjóþekja á flestum vegum á Suðurlandi. Þá er þæfingsfærð á Krýsuvíkurvegi.

Hálka og snjóþekja er víðast hvar á Vesturlandi og Vestfjörðum, og verið að hreinsa vegi þar sem þess þarf. Þæfingsfærð er á Klettshálsi.

Það er talsvert autt eða aðeins í hálkublettum á Norðurlandi vestra, þó hálka á Þverárfjalli og víða á útvegum. Meiri hálka er hins vegar á Norðurlandi eystra og þar er víða snjóþekja en verið að hreinsa.

Þæfingsfærð er á Möðrudalsöræfum eftir nóttina en hálka og snjóþekja á vegum á Austurlandi, suður undir Höfn. Á Suðausturlandi er autt milli Hafnar og Klausturs en þaðan eru hálkublettir að Vík.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×