„Það er verið að rugla saman dagvinnu og vaktavinnu. Menn fá ekki greidda yfirvinnu eftir tvö hundruð tíma vinnu, fá ekki hvíld þegar þeir eiga að fá hvíld. Það er öll flóran af brotum,“ bætir hún við og segist hafa kallað eftir úrbótum eiganda hótelsins.
Starfsmaður hótelsins segir brot á starfsmönnum svo gróf að farið hafi verið fram á vinnustöðvun á hótelinu. Halldóra Sigríður vill ekki gefa það upp til hvaða aðgerða verði gripið.

„Ég hef ekki heyrt í Halldóru, eitt einasta orð. Hún hefur aldrei komið til mín. Ég reikna ekki út launin, hef aldrei reiknað út launin. Það hefur enginn komið til mín og beðið um leiðréttingar. Í fjörutíu ár hef ég verið með þúsundir í vinnu og aldrei komið upp svona mál. Þetta er mjög alvarlegur hlutur. Allir útlendingar sem eru að vinna hjá mér koma aftur og aftur. Þetta er eins og hvert annað einelti og atvinnurógur og ef það er eitthvað sem hefur misfarist þá vil ég leiðrétta það strax.“
Verkalýðsfélög landsins eru í átaki þessa dagana og vilja tryggja kjör og réttindi á íslenskum vinnumarkaði fyrir alla sem hér starfa, þar með talda útlendinga sem hingað koma og ungt fólk sem er að hefja þátttöku á vinnumarkaði.
Alþýðusamband Íslands stendur í samstarfi við aðildarsamtök sín að verkefni gegn undirboðum á vinnumarkaði og svartri atvinnustarfsemi með yfirskriftinni Einn réttur – ekkert svindl. Verkefnið beinist gegn þeim fyrirtækjum sem misnota erlent vinnuafl og ungt fólk og skapa sér þannig samkeppnisforskot.
Fjallað var um hótelið í þættinum Um land allt á Stöð 2 snemma árs 2013. Þáttinn má sjá hér að neðan.