„Þetta var á vegakaflanum á milli Hellu og Hvolsvallar og aðstæður voru ekkert sérstakar en við vorum á fjórum vel búnum trukkum. Síðan kallar einn trukkurinn „Mayday, Mayday!“, segir að það sé bíll farinn út af og hvort við eigum ekki að koma fólkinu í honum til aðstoðar. Þetta voru fjórir ferðamenn frá Tævan í einhvers konar „pre-wedding“-ferð, konan var meira að segja í brúðarkjól, en þau höfðu runnið svona allhressilega út af veginum,“ segir Guðfinnur Einarsson, formaður kórsins í samtali við Vísi.
Með samstilltu átaki tókst kórnum að koma bílnum aftur upp á veg en að sögn Guðfinns var bíllinn alveg pikkfastur og ekki annað í stöðunni en að draga hann aftur upp á veg. Myndband af björguninni má sjá hér að neðan og auðvitað söng kórinn hástöfum á meðan og varð lagið Ég fann þig fyrir valinu.
Aðspurður hvernig kórnum gekk síðan að komast inn í Þórsmörk segir hann að það hafi gengið vel enda séu trukkarnir vel útbúnir. Kórinn undirbýr nú væntanlega tónleika og eru æfingabúðirnar liður í undirbúningnum en ekki liggur nákvæmlega fyrir hvenær tónleikarnir verða.