Viðskipti erlent

Tæknirisar styðja við bakið á Apple

Samúel Karl Ólason skrifar
Forsvarsmenn Apple, Facebook, Google og Twitter.
Forsvarsmenn Apple, Facebook, Google og Twitter. Vísir/EPA
Tæknifyrirtæki í Bandaríkjunum raða sér nú upp við hlið Apple í baráttu þeirra við alríkislögregluna. Dómari hefur skipað Apple að brjóta dulkóðun síma árásarmannanna í San Bernardino, svo lögreglan geti nálgast gögn í símanum.

Forsvarsmenn fyrirtækja eins TwitterGoogle og Facebook hafa lýst yfir stuðningi við stöðu Apple í málinu.

Umræddur sími er varinn með fjögurra tölustafa lykilorði, en sé rangt lykilorð slegið inn tíu sinnum læsist síminn að fullu og ómögulegt verður að nálgast gögnin. FBI vill í raun að Apple útbúi hugbúnað sem geri FBI kleyft að komast fram hjá þessu öryggisatriði svo þeir geti prófað allar mögulegar útfærslur á lykilorðinu, án þess að síminn læsist.

Apple segir að verði slíkur hugbúnaður búinn til, séu líkur á því að hann gæti lekið og þar með yrði öryggi allra snjallsíma Apple ógnað. Ekki sé til einhver töfralausn til að opna einn síma sem ekki sé hægt að beita gegn öðrum.

Nær til alls heimsins

Tim Cook, yfirmaður Apple, birti á dögunum bréf til allra viðskiptavina fyrirtækisins vegna málsins. 

Þar segir hann að krafa dómstólsins ógni öryggi viðskiptavina og snúist um mun meira en rannsóknina á skotárásinni í San Bernardino.

Sjá einnig: Apple og FBI í hár saman vegna iPhone síma fjöldamorðingja

Apple hefur þar til á þriðjudaginn til að svara ákvörðun dómarans samkvæmt frétt AP fréttaveitunnar.

Jack Dorsey, forstjóri Twitter, lýsti nýverið yfir stuðningi við Apple. Hann sagði Twitter standa við bakið á Apple og þakkaði Tim Cook fyrir að leiða baráttuna. 

Í tilkynningu frá Facebook segir að fyrirtækið muni berjast harðlega gegn því að tæknifyrirtækjum sé skipað að draga úr öryggi neytenda. Þetta gæti verið hræðilegt fordæmi.

Sundar Pichai, forstjóri Goole, slær á svipaða strengi og segir að það að neyða fyrirtæki til að hjálpa hökkurum væri ekki gott fyrir neytendur.

Gagnrýnendur segja að þessi krafa yfirvalda Bandaríkjanna gæti haft umfangsmiklar afleiðingar. Stjórnvöld annarra ríkja gætu gert sömu kröfur og niðurstaða málsins muni hafa áhrif um allan heim.

Jack Dorsey, forstjóri Twitter.
Sundar Pichai, yfirmaður Google.

Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×