Erlent

10.000 flóttabörn hið minnsta horfin í Evrópu

Bjarki Ármannsson skrifar
Sýrlensk börn hjúfra sig að móður sinni eftir flótta til Istanbúl í Tyrklandi.
Sýrlensk börn hjúfra sig að móður sinni eftir flótta til Istanbúl í Tyrklandi. Vísir/AFP
Að minnsta kosti tíu þúsund flóttabörn hafa nú horfið í Evrópu, samkvæmt nýrri skýrslu Europol. Óttast er að mörg þeirra hafi ratað í hendur glæpasamtaka.

Í samtali við sunnudagsblað breska miðilsins The Guardian segir Brian Donald, yfirmaður hjá Europol, að bara á Ítalíu hafi um fimm þúsund börn horfið. Önnur þúsund séu horfin í Svíþjóð.

„Þau munu ekki öll verða glæpasamtökum að bráð,“ segir Donald. „Sum þeirra gætu hafa náð til fjölskyldumeðlima. Við vitum bara ekki hvar þau eru, hvað þau eru að gera eða með hverjum.“

Í síðustu viku lýstu Bretar yfir því að þeir myndu taka við fleiri flóttabörnum frá Sýrlandi og öðrum átakasvæðum sem ekki eru í fylgd með fullorðnu fólki. Hjálparsamtökin Save the Children gera ráð fyrir því að um 26 þúsund fylgdarlaus börn hafi ratað til Evrópu í fyrra.

Donald staðfestir að Europol búi yfir upplýsingum þess efnis að sum þessara flóttabarna hafi verið nýtt í kynlífsþrælkun, jafnvel af þeim hópum eða samtökum sem hafa verið að „hjálpa“ börnunum að flýja til Evrópu.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×