Viðskipti erlent

Rússneska hagkerfið skreppur saman

ingvar haraldsson skrifar
Gestir á Rauða torginu í Moskvu.
Gestir á Rauða torginu í Moskvu. vísir/afp
Efnahagskreppa ríkir nú í Rússlandi en hagvöxtur í landinu var neikvæður um 3,7 prósent árið 2015 samkvæmt bráðabirgðatölum frá hagstofu landsins.

Smásala dróst saman um 10 prósent og fjárfesting um 8,4 prósent að því er fram kemur á vef BBC.

70 prósent fall á olíuverði síðustu 15 mánuði hefur komið sérstaklega illa við hagkerfi landsins. Þá hafa viðskiptaþvinganir Vesturlanda einnig haft áhrif. Um helmingur af tekjum ríkisins koma til vegna olíu- og gasvinnslu.

Dmitry Medvedev, forsætisráðherra Rússlands, varaði við því að fjárlögum þessa árs kynni að vera breytt vegna ástandsins. Vladímír Pútín Rússlandsforseti sagði í desember að fjárlögin hafi miðað við að olíuverð stæði í 50 dollurum á tunnu en ekki um 30 dollurum líkt og verð á olíutunnu stendur nú í.

Rússensk stjórnvöld eru talin ætla að kynna fjölda aðgerða til að bregðast við kreppunni í vikunni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×