„Já, ég er eiginlega bara klökk. Hann er svo æðislegur þessi hestur, svíkur mann aldrei og er alltaf með manni. Þó hann hafi verið aðeins hræddur og aðeins að spá í allt, er hann alltaf að hlusta,“ sagði Hulda Gústafsdóttir skælbrosandi eftir að hafa skotist upp í efsta sætið í sterkri forkeppni í fjórgangi í Meistaradeildinni í hestaíþróttum í gærkvöldi á hinum léttleikandi Stálasyni Aski frá Laugamýri.
Baráttan um efstu sætin á þessu fyrsta stórmóti ársins í hestaheiminum var hörð, en þrátt fyrir snarpa samkeppni, einkum frá Jakobi Svavari Sigurðssyni og Elinu Holst, lét Hulda ekki deigan síga í A-úrslitum og hélt forystunni þar til yfir lauk.
Fjórgangskeppnin var sýnd í beinni útsendingu á Stöð 2 sport og er næsta útsending annan fimmtudag, 11. febrúar, en þá er gæðingafimi á dagskrá.
Hægt er að sjá sýningu Huldu og Asks í forkeppninni í heild sinni í meðfylgjandi myndbroti.
Einkunnir og dóma eru á vefsíðunni meistaradeild.is en niðurstaðan eftir A-úrslit var eftirfarandi:
1. Hulda Gústafsdóttir / Askur frá Laugamýri - 7.90
2. Jakob Svavar Sigurðsson / Júlía frá Hamarsey - 7.73
3. Elin Holst / Frami frá Ketilsstöðum - 7.70
4. Þórdís Erla Gunnarsdóttir / Sproti frá Enni - 7.47
5. Bergur Jónsson / Katla frá Ketilsstöðum - 7.27
6. Hinrik Bragason / Pistill frá Litlu-Brekku - 7.17
7. Eyrún Ýr Pálsdóttir / Kjarval frá Blönduósi - 7.00

