Viðskipti innlent

Árið sem leið var í takt við spár greiningaraðila

sæunn gísladóttir skrifar
Hér má sjá samanburð á spám greiningaraðila og hver raunin varð undir lok ársins.
Hér má sjá samanburð á spám greiningaraðila og hver raunin varð undir lok ársins. fréttablaðið
Árið sem leið var að mestu leyti í takt við spár greiningaraðila. Almennt var þó spáð meira atvinnuleysi, en raun bar vitni, meiri verðbólgu og sumir spáðu meiri húsnæðisverðshækkunum.

Verðbólga hélst undir flestum spám greiningaraðila fyrir árið, þrátt fyrir erfiða kjarabaráttu og launahækkanir sem fylgdu á árinu. Verðbólga mældist tvö prósent í árslok, líkt og Íslandsbanki spáði í upphafi árs og nálægt 1,8 prósenta spá Arion banka á síðari hluta ársins.

Atvinnuleysi mældist minna á árinu en spáð var. Það mældist að meðaltali 2,97 prósent á fyrstu ellefu mánuðum ársins samkvæmt tölum frá Vinnumálastofnun. Hins vegar spáði stofnunin 4,1 prósents atvinnuleysi á árinu í skýrslu í mars 2015. Nýtt vandamál tók við þar sem erfitt hefur verið að manna sum störf, sérstaklega í þjónustugeiranum.

Verð á íbúðarhúsnæði rauk upp á árinu og hækkaði um 8,2 prósent samkvæmt tölum Hagstofunnar. Þetta var undir spá Landsbankans frá því í janúar 2015, en í takt við spá Íslandsbanka og Arion banka.

Enn liggja ekki fyrir lokatölur um hagvöxt á árinu. Seðlabankinn spáði fjögurra prósenta hagvexti á árinu og spáðu bankarnir hagvexti á bilinu 4,3 til 5,5 prósent. Samkvæmt tölum frá Hagstofunni mældist hagvöxtur 4,5 prósent á fyrstu níu mánuðum ársins. Lokatölur fyrir árið verða ekki ljósar fyrr en í mars.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×