Þetta kom fram í máli hans í kvöld í þættinum Ísland í dag þar sem hann ræddi ásamt Björt Ólafsdóttur, þingmanni Bjartrar framtíðar, um fangelsismál á Íslandi.
Björt hefur áður sagt að mikilvægt sé að hugsa þennan málaflokk upp á nýtt og að unnið verði meira í átt að betrun. Ummæli hennar um að hvítflibbaglæpamenn ættu ekki að sitja í fangelsi, sem hún lét falla í Fréttablaðinu í desember, vöktu mikla athygli.
Sjá einnig: Bankamenn eiga ekki að vera í fangelsi
Páll sagðist geta tekið undir þau orð Bjartar að meiri áherslu þyrfti að leggja á betrun í íslenskri refsistefnu.

„Ég held að við séum með of marga í fangelsi of lengi. Þess vegna einmitt eigum við að einbeita okkur meira að fullnustu utan fangelsa; með rafrænu eftirliti, með vistun á áfangaheimilum og svo framvegis,“ segir Páll. Að hans mati er því mikilvægt að ráðamenn láti ekki kröfur almennings um þyngingar refsinga of mikil áhrif á sig hafa.
„Ég held að það sé mjög mikilvægt að þeir sem setji leikreglurnar; Alþingi, dómstólarnir og svo við sem erum partur af framkvæmdavaldinu og fullnustu refsinganna, að við berum þroska til þess að láta ekki hefnigirni, hefndarþorsta og þetta ógeð sem er í gangi í samfélaginu hafa áhrif á okkar störf,“ segir Páll og bætir við: „Við eigum ekki að taka mið af einhverjum brjáluðum bloggurum.“
Spjall þeirra Páls, Bjartar og Lóu Pindar má sjá í spilaranum hér að ofan