Ritgerðin, sem fjallar um ferðaþjónustu á Suðurlandi, byggir meðal annars á viðtölum og gögnum frá ferðaþjónustuaðilum á svæðinu. Meðal annars frá Friðriki Pálssyni hótelstjóra á Hótel Rangá.

„Ég gerði Háskóla Íslands viðvart um þetta þegar ég varð þessa vís,“ segir Friðrik í samtali við Fréttablaðið. Hann vildi ekki tjá sig um málið að öðru leyti.
Samkvæmt upplýsingum Fréttablaðsins komst upp um málið í kjölfar þess að Friðrik fékk ábendingu um að fram væri komin ritgerð sem byggðist á rekstri hans. Friðrik kannaðist sjálfur ekkert við að hafa svarað spurningum frá ritgerðarhöfundi. Þá kannaðist Friðrik ekki heldur við ýmsar tölur um reksturinn sem komu fram í ritgerðinni. Í kjölfar þessa, fyrir um það bil tveimur mánuðum, vakti Friðrik athygli viðskiptafræðideildar á málinu.

Þær upplýsingar fengust frá skólanum að málið væri ekki komið inn á borð rektors og væri enn í höndum viðskiptafræðideildar. Runólfur Smári Steinþórsson, deildarforseti viðskiptafræðideildar, vildi ekki svara neinum spurningum um málið og vísaði eingöngu í almennar verklagsreglur.
„Ef upp kemst að ritgerð standist ekki getur það haft alvarlegar afleiðingar,“ sagði hann í samtali við Fréttablaðið í gærkvöldi.
Fréttablaðið náði einnig tali af höfundi ritgerðarinnar í gærkvöldi. Hann vildi ekki tjá sig um málið.
Sviptur kandídatstitli frá lagadeild

Mál Vilhjálms kom upp í kjölfar þess að Úlfar Hauksson stjórnmálafræðingur vakti athygli lagadeildar á að kafla úr ritgerð sem hann skrifaði við félagsvísindadeild Háskólans væri að finna orðrétta í ritgerð Vilhjálms.
Deildarfundur lagadeildar samþykkti að heimila Vilhjálmi að skrifa nýja ritgerð við lagadeild.