TF-KAJ var flogið frá Akureyrarflugvelli 22. júní í fyrra. Hugðist flugmaðurinn sem var einn um borð fljúga að Miklavatni í Fljótum og lenda þar.
„Þegar flugmaðurinn nálgaðist Þorvaldsdal sá hann að þokubakki var í dalnum sem virtist rísa upp og nálgast hann. Hann ákvað því að snúa við. Þegar hann hafði tekið um 90° beygju til vinstri (til suðvesturs) kom þokan snögglega yfir hann og sá hann ekki lengur til jarðar,“ segir í skýrslu rannsóknarnefndarinnar. Flugmaðurinn hafi þá hætt við beygjuna og reynt að halda flugvélinni láréttri og lækka flugið.

Rannsóknarnefndin segir að miðað við þær veðurupplýsingar sem lágu fyrir um skýjahæðina, sem hafi verið um þrjú þúsund fet, hafi „verið vafasamt að fljúga samkvæmt sjónflugsreglum yfir fjalllendi sem liggur í svipaðri hæð“.

Um flugmanninn segir að hann hafi verið 49 ára atvinnuflugmaður með yfir fimmtán þúsund klukkustunda flugreynslu, þó aðeins 70 tíma á þessa tilteknu flugvélartegund. Leggur rannsóknarnefndin „áherslu á að flugmenn, og þá sérstaklega þeir sem hafa mikla blindflugsreynslu, vanmeti ekki þær aðstæður sem geta skapast í sjónflugi á flugvélum sem ekki eru útbúnar til blindflugs.“