Fótbolti

Hannes býst við að fara í sumar: „Það eru enn ljón í veginum“

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Hannes Þór Halldórsson hefur vakið áhugga nokkurra félaga.
Hannes Þór Halldórsson hefur vakið áhugga nokkurra félaga. vísir/ernir
Landsliðsmarkvörðurinn Hannes Þór Halldórsson segir allar líkur á því að hann muni yfirgefa norska B-deildarfélagið Sandnes Ulf í sumar.

Eins og fram kom í norskum miðlum í vikunni hefur tyrkneskt félag lagt fram tilboð í Hannes Þór en þar að auki hafa önnur lið sýnt honum áhuga.

„Ég er að meta stöðuna sem upp er komin og ætla að skoða aðra möguleika einnig. Það er eitt og annað í umræðunni og ég þarf að meta plúsa og mínusa í öllum aðstæðum,“ sagði hann í samtali við Fréttablaðið í gær.

Hann segir þó að flest bendi til þess að hann sé á leið annað í sumar. „Það eru þó enn ljón í veginum en ég veit af áhuga liða og þessi mál eru komin lengra en nokkru sinni fyrr,“ segir Hannes sem var orðaður við önnur félög eftir að Sandnes Ulf féll úr norsku úrvalsdeildinni í haust.

Hann vill þó lítið segja um hvort honum hugnist að spila í Tyrklandi né heldur nafngreina félagið sem gerði honum tilboð.

„Það eru kostir og gallar við allt saman sem ég þarf að vega og meta út frá því hvaða aðrir kostir eru í stöðunni. Þetta er eitthvað sem ég þarf að melta,“ sagði Hannes Þór Halldórsson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×