Skoðun

Stórfyrirtæki gegn lýðræði

Steinunn Þóra Árnadóttir skrifar
Mikil leynd hefur hvílt yfir samningaviðræðum Bandaríkjanna og ríkja Evrópusambandsins um sáttmála um fjárfestingar beggja vegna Atlantsála (TTIP) og sáttmála um rekstrarfyrirkomulag þjónustu (TISA) sem nær til fleiri ríkja og fjallar jafnframt um grunnatriði eins og heilsugæslu.

Það var ekki fyrr en flett var ofan af þessum viðræðum á netsíðunni Wikileaks að almenningur fékk innsýn í innihald þessara viðræða. Fram að því hafði leyndarhyggjan verið allsráðandi.

Mikið hefur skort upp á að íslenskir fjölmiðlar veiti þessum viðræðum viðeigandi athygli og fæstir íslenskir stjórnmálaflokkar hafa gefið upp afstöðu sína til málsins.

Við í Vinstrihreyfingunni – grænu framboði erum hins vegar mjög gagnrýnin á þessar viðræður og það sem þeim er ætlað að ná fram. Við teljum að í þessum sáttmálum felist aðför að lýðræði í þeim ríkjum sem gerast aðilar. Verið er færa völd úr höndum lýðræðislegra stofnana í hendur stórfyrirtækja.

Forræði lýðræðislegra samfélaga yfir eigin lögum og reglum er að verulegu leyti fært yfir á vettvang sem óhjákvæmilega verður ógagnsær. Ætla má að ákvarðanir verði ekki bornar undir almenning eða teknar með hag hans að leiðarljósi. Sem dæmi um það er sú ráðstöfun að koma á fót dómstólum þar sem stórfyrirtæki eigi sama rétt og sjálfstæðar þjóðir.

Niðurstaða máls fyrir slíkum dómi gæti auðveldlega orðið sú að hagsmunir fyrirtækis séu teknir fram yfir almannahagsmuni. Það myndi merkja endalok lýðræðisins í þeirri mynd sem hefur verið ríkjandi á Vesturlöndum frá því að almenningur fékk kosningarétt.

Forsenda fyrir því að verið er að smygla þessu viðsjárverða aðskotadýri inn í samfélagsgerð okkar er kreppa auðvaldsins sem hefur valdið efnahagsþrengingum alls staðar á Vesturlöndum og takmarkað ofsagróða fyrirtækja. Þau ætla nú að sækja sér betri vígstöðu á kostnað almennings og sameiginlegrar grunnþjónustu okkar. Hið nýja slagorð virðist vera „allt vald til stórfyrirtækjanna“. Gegn því verðum við að standa.




Skoðun

Skoðun

Kona, vertu ekki fyrir!

Elín Björg Jónsdóttir,Halldóra Sigríður Sveinsdóttir,Hrafnhildur Lilja Harðardóttir skrifar

Sjá meira


×