Innlent

Vélarbilun og þrumur töfðu flug hjá WOW

Stefán Rafn Sigurbjörnsson og Þórgnýr Einar Albertsson skrifa
WOW air mun tryggja réttindi farþega.
WOW air mun tryggja réttindi farþega. Fréttablaðið/Vilhelm
„Við vorum með bilaða flugvél og þurftum að reiða okkur á leiguflugvélar. Síðan olli þrumuveður í Baltimore miklum töfum,“ segir Birgir Jónsson, aðstoðarforstjóri WOW air.

Veruleg seinkun varð á flugi 24 véla hjá WOW air síðustu tvo daga. Einungis fjórum vélum seinkaði ekki.

Birgir segir erfitt að eiga við vélabilanir og að fyrirtækið geti ekki stjórnað veðrinu.

„Við höfum verið að reyna að ná töfunum niður með því að leigja flugvélar og hraða flugi. Allt ætti að vera komið á áætlun á morgun [í dag],“ segir Birgir og bendir á að atvik sem þessi valdi oftast seinkunum í nokkra daga. Sérlega óheppilegt sé að lenda í bæði vélarbilun og veðurofsa.

Minnst seinkun varð á flugi til Keflavíkur frá Kaupmannahöfn í gær. Sú vél átti að lenda 14.25 en lenti ekki fyrr en 15.44.

Mesta seinkunin var hins vegar á flugi frá París til Keflavíkur. Sú vél átti að lenda klukkan 14.05 en lenti ekki í Keflavík fyrr en tæpum tíu klukkutímum síðar, eða 23.52.

Meðalseinkun vélanna var um þrjár og hálf klukkustund.

Birgir segir að reglur um réttindi farþega séu skýr.

„Það er á hreinu að ef tafir verða lengur en þrjár klukkustundir ber okkur að borga farþegum bætur.“

Birgir segir að WOW tryggi að farþegar sem eigi rétt á bótum fái þær afgreiddar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×