Íslenski boltinn

Stórleikur á Samsung-vellinum í kvöld

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Guðmunda Brynja Óladóttir, fyrirliði Selfoss.
Guðmunda Brynja Óladóttir, fyrirliði Selfoss. vísir/valli
Þriðja umferð Pepsi-deildar kvenna fer fram í kvöld. Stórleikur umferðarinnar verður á Samsung-vellinum í Garðabæ þar sem Íslandsmeistarar Stjörnunnar taka á móti Selfossi.

Stjarnan hefur unnið báða leiki sína til þessa með markatölunni 5-0 og er í 3. sæti, með jafnmörg stig og Breiðablik og Valur. Landsliðskonan Dagný Brynjarsdóttir kom inn í lið Selfoss fyrir síðasta leik gegn ÍBV og innkoma hennar hafði góð áhrif því Sunnlendingar unnu 3-2.

Breiðablik, sem er með fullt hús stiga og markatöluna 10-1, mætir KR á Kópavogsvelli en nýliðarnir úr Vesturbænum eru í leit að sínum fyrstu stigum. Fylkiskonur sækja Val heim en Hlíðarendaliðið er með fullt hús stiga eftir örugga sigra á Aftureldingu og KR.

Þá tekur ÍBV á móti Þrótti á Hásteinsvelli og stigalausir Mosfellingar fara norður og mæta þar Þór/KA sem er með fjögur stig af leikjunum tveimur loknum. Leikirnir í Eyjum og á Akureyri hefjast klukkan 18:00 en hinir klukkan 19:15.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×