Framleiðendur kjúklingakjöts hafa fengið undanþágu til slátrunar á meðan á verkfalli dýralækna stendur til þess að tryggja velferð fuglanna. Grisjunin í búunum fer þannig fram að fuglunum er slátrað með hefðbundnum hætti í sláturhúsi, en afurðirnar settar í frysti í stað þess að fara á markað.
Dýralæknar eru á meðal félagsmanna Bandalags háskólamanna (BHM) sem eru í ótímabundnu verkfalli. Verkfall þeirra hefur nú varað í rúma viku.
Magnús Huldar Ingþórsson, framleiðslustjóri hjá Reykjagarði, segir að þar á bæ hafi verið slátrað á laugardag og svo aftur í gær. Þá liggi fyrir beiðni um frekari undanþágur þannig að hægt verði að rýma til í búunum með sambærilegum hætti.
„En ástandið er í jafnvægi í augnablikinu,“ segir hann. Undanþáguheimild dýralæknanna hafi leyst brýnasta vanda búanna, þótt róðurinn sé vissulega erfiður í þessu ástandi.
Sjá einnig: Sáttir við undanþágu en vilja lausn kjaradeilu
Sveinn Jónsson, framkvæmdastjóri hjá Matfugli, tekur í sama streng, en hjá fyrirtækinu var slátrað um helgina og önnur undanþágubeiðni er í vinnslu.
„Þetta er tekið fyrir ein beiðni í einu,“ segir hann. Ekki verði vandamál að geyma kjötið sem til fellur. „Það er nóg af frystigeymslum úti um allt.“

