Lífið

Mæðgur sýna báðar á HönnunarMars

Adda Soffia skrifar
Mæðgurnar Anita og Anna
Mæðgurnar Anita og Anna Visir/Valli
Mæðgurnar Anita Hirlegar fatahönnuður og Anna Gunnarsdóttir textílhönnuður opnuðu báðar sýningar á HönnunarMars. „Þetta er ótrúlega gaman. Sérstaklega gaman að undirbúningnum saman og spennan í kringum þetta,“ segir Anita.

Hún mun sýna í Kraumi, Aðalstræti 10, útskriftarlínu sína frá Central Saint Martins í London. Þaðan útskrifaðist hún með meistaragráðu í fatahönnun síðastliðið vor.

„Mamma er meira í vöruhönnuninni og ég í tískunni,“ segir hún. Þær segja það hafa verið gott að undirbúa sýningarnar saman og fá ráð og álit hvor hjá annarri. „Það er auðvitað miklu betra að hafa fjögur augu. Við þorum líka að vera hreinskilnari hvor við aðra og gátum sagt ef eitthvað var alveg glatað hjá hinni,“ segir Anita og hlær.

„Mér finnst þetta bara alveg æðislegt. Og hefði verið enn þá betra ef við hefðum getað verið að sýna í sama húsi,“ segir Anna.

Hún er með vinnustofuna Hvítspóa á Akureyri þar sem hún vinnur með textíl. „Ég er að sýna ljós á sýningunni sem ég vinn úr ull og silki. Það þæfi ég í kúlur sem ég set á ljósin og það gefur þeim skemmtilega áferð,“ segir Anna. Hún segir Anitu sennilega hafa þessa skapandi hæfileika frá sér. „Hún er eina barnið mitt sem er í list. Ætli þetta komi ekki frá ömmu minni sem var handavinnukennari og svo mömmu, sem starfaði sem kjólaklæðskeri.“

Þær mæðgur segjast veita hvorri annarri innblástur og það sé gott að fá stuðning og hjálp frá hinni. Þær hafa ekki unnið saman en útiloka það ekki. „Það er nú bara aldrei að vita í framtíðinni, það væri gaman,“ segja þær. Sýningarnar verða opnar yfir helgina og fram yfir sunnudag. 


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.